13.1.2009 | 08:51
Stofufangelsið Ísland
Ísland er orðið að einu stóru stofufangelsi.
Hinn almenni borgari hefur verið dæmdur til að sitja inni. Hann veit bara ekki upp á hve langan tíma dómurinn hljóðar.
Eignir hins almenna borgara liggja yfirleitt í húsnæði, bifreiðum og einhverjum sparnaði.
Húsnæði er nánast óseljanlegt; auk þess sem það er að falla í verði og engin veit hvenær því linnir. Bifreiðar hafa fallið í verði og eru nánast óseljanlegar. Sparnaður stórs hluta þjóðarinnar rýrnaði gífurlega við fall bankanna. Að lokum hefur fall bankanna leitt til þess að hver einasti þjóðfélagsþegn hefur í raun fengið greiðsluseðill sendan heim. Höfuðstóll ca 5 milj og vextir reiknast frá gjalddaga.
Þeir sem enn eiga eitthvað eftir hamfarirnar komast ekki af landi brott með eigur sínar. Vegna gjaldeyrishaftanna er ekki hægt að skipta krónum í erlenda mynt nema að takmörkuðu leiti og senda umsókn til Seðlabankans.
Erlendir bankar og fjárfestingasjóðir sem áður trúðu á Ísland hafa einnig verið dæmdir til að sitja í stofufangelsinu Íslandi. Þeir eiga um 600 miljarða í krónubréfum og geta ekki skipt krónunum í erlenda mynt vegna gjaldeyrishaftanna. Engin getur svarað hve lengi þeir þurfa að sitja inni. Ekki ósvipað þeim ólukku mönnum sem fyrir 7 árum var komið fyrir á Guantanamo á Kúpu.
Kaupfélag austur á fjörðum fékk samkeppni á staðinn fyrir nokkrum áratugum síðan þ.s. einstaklingi datt í hug að opna verzlun. Hjá Kaupfélaginu vann þorri íbúa staðarins þ.s. Kaupfélagið átti nánast allt á staðnum þ.á.m. frystihúsið. Kaupfélagið greyp þá til þess ráðs að greiða fólki út í Kaupfélagskrónum. Þær var ekki hægt að nota nema bara í Kaupfélaginu. Ekki liðu nema nokkrar vikur þar til samkeppnisaðilinn varð gjaldþrota.
Í okkar stóra stofufangelsi eru notaðar Kaupfélagskrónur og þær er ekki hægt að nota annars staðar en á Íslandi.
Athugasemdir
Þetta er góð samlílking,kaupfélagskrónur voru orðnar afar óvinsælarenda flest kaupfélög liðin undir lok.Það minnisstæðasta eru nú ekki svo ýkja gamalt,þar sem elskuleg vinkona okkar var KF.stjóri,Hulda heitin Pétursdóttir,Borgarholtsbraut. Ég trúi á þá Íslendinga sem eru að klekjast út,sem fullorðnir alvöru stjórnmálamenn,ekki til að komast í þægileg sæti,heldur vinna af hugsjón.
Helga Kristjánsdóttir, 14.1.2009 kl. 19:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.